Má bjóða þér minna?

Ný plata eftir Eyvind Karlsson


Upplýsingar fyrir blaðamenn

Gefur út þrjár plötur í ár

Eyvindur Karlsson er hættur að leyfa kvíðanum að ráða

Föstudaginn 3. júní 2022 sendir tónlistarmaðurinn Eyvindur Karlsson frá sér aðra sólóplötu sína, sem ber yfirskriftina Má bjóða þér minna? Áður hefur Eyvindur gefið út plötuna A Bottle Full of Dreams, árið 2018, þá undir listamannsnafninu One Bad Day. Sú plata tafðist töluvert vegna kvíðaröskunar, og tók 10 ár að koma henni út. COVID setti svo strik í reikninginn varðandi nýju plötuna, en hún átti að koma út fyrir ári síðan. 

Eyvindur er hins vegar staðráðinn í að láta ekki aftur líða svona langt á milli útgáfa, og er með þrjár plötur áformaðar á þessu ári. Nú er það Má bjóða þér minna? Í haust kemur út tónlist við leiksýninguna Fíflið, sem Eyvindur kemur fram í ásamt föður sínum, Karli Ágústi Úlfssyni, og semur alla tónlistina í. Í lok árs er svo von á stórri plötu sem hefur verið í smíðum síðan 2019 og ber yfirskriftina Henry.

Má bjóða þér minna? er samansafn af frumsömdum lögum og tökulögum sem Eyvindur tók upp þegar öllu var skellt í lás út af COVID. Ólíkt fyrri plötunni eru öll frumsömdu lögin á þessari á íslensku. Yfirbragðið er töluvert léttara hér en á A Bottle Full of Dreams, en Eyvindur heldur sig samt á kunnuglegum Americana slóðum.

Frumsömdu lögin eru samansafn af lögum sem hafa verið samin við hin ýmsu tilefni undanfarin ár, en tökulögin eru ekki af verri endanum. Fyrst og fremst ber þar að nefna slagarann Jaja Ding Dong, úr Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga með Will Farrell. Eyvindur setur það í mjög nýstárlegan búning. 

Eyvindur fær til sín góða gesti á plötunni. Í laginu In My Mind, country smelli eftir David Allan Coe, syngur Svavar Knútur með honum, og frumsamda lagið Þegar flaskan er full er dúett með Bryndísi Ásmundsdóttur.

Má bjóða þér minna? kemur eins og áður sagði út föstudaginn 3. júní n.k. og verður aðgengileg á vefsíðu Eyvindar onebadday.is, og á öllum helstu streymisveitum.

Reykjavík, 1. júní 2022

Eyvindur Karlsson

>